Icelandair: Nýir samningar um viðskiptavakt

Source: GlobeNewswire
Icelandair: Nýir samningar um viðskiptavakt

Icelandair Group hf. ("Icelandair") hefur gert samning við Íslandsbanka hf. um viðskiptavakt með hlutabréf útgefin af félaginu og skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði Nasdaq Iceland. Tilgangur samningsins er að viðhalda seljanleika hlutabréfa í Icelandair, skapa markaðsverð og styðja við skilvirka og gagnsæja verðmyndun bréfanna.  

Samkomulagið kveður á um að Íslandsbanki skuli daglega gera kaup- og sölutilboð í hlutabréf Icelandair í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Hvert kaup- og sölutilboð skal vera að lágmarki kr. 10.000.000 að nafnverði, á gengi sem Íslandsbanki ákveður. Slík tilboð skulu þó ekki víkja meira en 3% frá síðasta viðskiptaverði. Verðbil kaup- og sölutilboða skal ákvarðað með hliðsjón af verðþrepatöflu Kauphallarinnar eins og hún er á hverjum tíma þannig að álagið verði sem næst 1,5% en þó ekki lægra en 1,45%. Íslandsbanka verður þó heimilt að setja fram kaup- og sölutilboð í lægra verðbili, t.d. vegna aðstæðna sem upp kunna að koma í verðþrepatöflu Kauphallarinnar.  

Eigi Íslandsbanki, innan sama viðskiptadags, viðskipti með hlutabréf í Icelandair, sem fram fara í gegnum veltubók bankans, að fjárhæð samtals kr. 60.000.000 að nafnverði eða meira, falla niður fyrrnefndar skyldur Íslandsbanka um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags. Ef verðbreyting á hlutabréfum í Icelandair innan viðskiptadags er umfram 5,0% er Íslandsbanka heimilt að tvöfalda hámarksverðbil milli kaup-og sölutilboða tímabundið þann daginn, eða í 3%. 

Þá hefur Icelandair gert breytingar á samningi um viðskiptavakt sem nú þegar er í gildi við Arion banka, sbr. tilkynningu félagins dags. 29. júní 2023. Samningurinn kveður nú á um að hvert kaup- og sölutilboð skuli vera að lágmarki kr. 10.000.000 að nafnverði á því gengi sem Arion banki ákveður, sem er hækkun úr  lágmarki kr. 5.000.000 í upphaflegum samningi. Önnur atriði samningsins eru óbreytt. 

Samningarnir taka að öðru leyti mið af reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2017/578 frá 13. júní 2016 um tæknilega eftirlitsstaðla varðandi kröfur til samninga og kerfa um viðskiptavakt, sbr. 12. gr. 48. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga sem hafa lagagildi hér á landi samkvæmt ákvæðum laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga. Samningarnir eru ótímabundnir og taka gildi 2. apríl 2024. Hver aðili getur sagt upp samningi sínum með tilkynningu til hins aðilans hvenær sem er með 14 daga fyrirvara.  

Frekari upplýsingar veita: 
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir, Director Investor Relations. Tölvupóstur: iris@icelandair.is 

Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, Director Communications. Tölvupóstur: asdis@icelandair.is