Company Announcements

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf.: Árshlutareikningur fyrir 1. mars 2024 til 31. ágúst 2024

Source: GlobeNewswire
Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf.: Árshlutareikningur fyrir 1. mars 2024 til 31. ágúst 2024

Árshlutareikningur samstæðu Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf. fyrir tímabilið 1. mars 2024 – 31. ágúst 2024 var samþykktur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi 10. október 2024.

Helstu niðurstöður árshlutareiknings fyrir annan ársfjórðung fjárhagsársins 2024 eru:

  • Vörusala samstæðu Ölgerðarinnar var 0,4% minni á öðrum ársfjórðungi 2024 en á sama tímabili 2023 og framlegð lækkaði um 3,6%
  • EBITDA nam 1.656 millj. kr. samanborið við 1.933 millj. kr. á Q2 2023, sem jafngildir 14,3% lækkun milli ára.
  • Hagnaður eftir skatta var 930 millj. kr. á Q2 2024 og lækkar um 22% frá fyrra ári.  

Helstu niðurstöður árshlutareiknings fyrstu 6 mánuði fjárhagsársins 2024 eru:

  • Vörusala samstæðu Ölgerðarinnar jókst um 0,6% á fyrri helmingi fjárhagsársins miðað við sama tímabili 2023 og framlegð hækkaði um 1,1%
  • EBITDA nam 2.711 millj. kr. á fyrri helmingi fjárhagsársins, samanborið við 3.090 millj. kr. sem jafngildir 12,3% lækkun milli ára.
  • Hagnaður eftir skatta var 1.411 millj. kr. samanborið við 2.153 millj. kr á fyrra ári. Hagnaður eftir skatta án einskiptisliða (hlutdeildartekjur vegna áhrifa af kaupum á meirihluta í Iceland Spring ehf.) lækkaði um 20% frá fyrra ári.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir með leiguskuldbindingu voru 7.543 millj. kr. í lok Q2 2024 samanborið við 5.755 millj. kr. í lok árs 2023.
  • Áður útgefin afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 5,1 – 5,5 ma. kr. og gera stjórnendur Ölgerðarinnar nú ráð fyrir að EBITDA fjárhagsársins 1. mars 2024 – 28. febrúar 2025 lækki í 4,9 – 5,3 ma. kr. Helstu forsendur í uppfærðri spá eru horfur á minni umsvifum seinni hluta fjárhagsársins.

Rekstur Q2 2024 (millj. kr.) 

Rekstrarreikningur Q2 2024 Q2 2024 Q2 2023 Breyt. % Breyt
Vörusala 12.739 12.796 -57 0%
Áfengis- og skilagjald 3.369 3.413 -45 -1%
Vörunotkun 4.951 4.909 43 1%
Annar framleiðslukostnaður 262 162 100 62%
Framlegð 4.157 4.313 -155 -4%
Aðrar tekjur 11,2 11,4 -0,2 -2%
Laun og launatengd gjöld 1.239 1.115 124 11%
Sölu- og markaðskostnaður 666 665 2 0%
Annar kostnaður 608 611 -3 -1%
EBITDA 1.656 1.933 -277 -14%
Afskriftir 271 254 17 7%
EBIT 1.385 1.679 -294 -17%
Fjármagnsliðir og áhrif hlutdeildarfélaga 232 194 37 19%
Hagnaður fyrir skatta 1.154 1.485 -331 -22%
Tekjuskattur 224 294 -71 -24%
Hagnaður e. skatta 930 1.190 -260 -22%

Ársfjórðungurinn litast af breyttum ytri aðstæðum sem skýrist aðallega af minni neyslu erlendra ferðamanna og Íslendinga almennt. Samdráttur var í seldum lítrum til hótela, veitingastaða og skyndibitastaða.  

Vel hefur gengið að halda aftur af ýmsum kostnaðarþáttum á ársfjórðungnum og stóð sölu- og markaðskostnaður og annar rekstrarkostnaður nokkurn veginn í stað milli ára þrátt fyrir að um það bil 80 milljónum hafi verið varið í markaðsstarf vegna Collab á erlendum mörkuðum.

Gengistap á ársfjórðungnum jókst um 114 millj. kr. milli ára sem er vegna áhrifa veikingar krónunnar á móti evru á viðskiptaskuldir samstæðunnar. Hlutdeildartekjur lækkuðu um 2 millj. kr. og hrein vaxtagjöld um 79 millj. kr. milli tímabila sem stafar bæði af lægri skuldsetningu en á sama tímabili í fyrra og einnig hagstæðari fjármögnunarkjörum á víxlamarkaði.

Efnahagsreikningur 31.8.2024 29.2.2024 Breyt. % Breyt
Eignir 31.910 30.665 1.244 4%
Eigið fé 15.297 15.047 250 2%
Eiginfjárhlutfall 47,9% 49,1% -1,2  
         
Vaxtaberandi skuldir og leigusk. 7.702 7.279 423 6%
Handbært fé 158 1.524 -1.365 -90%
Nettó vaxtaberandi skuldir og leigusk. 7.543 5.755 1.788 31%
EBITDA sl. 12 mán 5.126 5.504 -379 -7%
NIDB/EBITDA sl. 12 mán 1,5 1,0 0,5  

Nettó vaxtaberandi skuldir að viðbættri húsaleiguskuldbindingu voru 7.543 millj. kr. í lok ársfjórðungsins. Það er 1.788 millj. kr. hækkun frá lokum síðasta fjárhagsárs. Síðasta dag ársfjórðungsins bar upp á helgidag og gjalddagi hárra viðskiptakrafna eins og hjá ÁTVR komu til greiðslu í byrjun september. Jafnframt fór launagreiðsla fyrir ágúst fram á tímabilinu en venjulega greiðast laun fyrsta vika dag næsta mánaðar. Áhrifin af þessu var yfir 1 ma. kr. sem þarf að hafa í huga þegar handbært fé, skuldastaða og staða viðskiptakrafna eru skoðaðar. Í júní var greiddur 1.419 millj. kr. arður til hluthafa og í maí voru gefnir út nýir hlutir fyrir 184 millj. kr. vegna kaupréttasamninga.  

Meðalvextir skulda samstæðunnar í íslenskum krónum voru 10,9% þann 31. ágúst 2024.

Rekstur 6 mán 2024 (millj. kr.) 

Rekstrarreikningur 6 m 2024 6 m 2024 6 m 2023 Breyt. % Breyt
Vörusala 23.972 23.836 137 1%
Áfengis- og skilagjald 6.217 6.222 -6 0%
Vörunotkun 9.270 9.374 -104 -1%
Annar framleiðslukostnaður 481 319 162 51%
Framlegð 8.005 7.921 84 1%
Aðrar tekjur 18,0 23,4 -5,4 -23%
Laun og launatengd gjöld 2.560 2.353 208 9%
Sölu- og markaðskostnaður 1.551 1.333 218 16%
Annar kostnaður 1.200 1.169 31 3%
EBITDA 2.711 3.090 -379 -12%
Afskriftir 548 501 47 9%
EBIT 2.163 2.589 -425 -16%
Fjármagnsliðir og áhrif hlutdeildarfélaga 428 -5 433 -8484%
Hagnaður fyrir skatta 1.735 2.594 -859 -33%
Tekjuskattur 324 440 -117 -27%
Hagnaður e. skatta 1.411 2.153 -742 -34%

Vörusala

Velta samstæðunnar á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins jókst um 137 millj. kr. eða um 1%. Sala til stórmarkaða og fyrirtækja jókst á tímabilinu en samdráttur var í sölu til hótela, veitingastaða og skyndibitakeðja.

Rekstrarumhverfi margra viðskiptavina Ölgerðarinnar hefur orðið erfiðara að undanförnu og má m.a. rekja það til hækkana á aðföngum, launahækkana í síðustu kjarasamningum og minni sölu. Viðskiptakröfur Ölgerðarinnar eru samt sem áður nokkuð traustar og er ekki útlit fyrir stór áföll. 

Laun og launatengd gjöld

Laun og launatengd gjöld námu 2.560 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins og hækkuðu um 208 millj. kr. milli ára eða 8,8%. Launahlutfallið á tímabilinu var 10,7% samanborið 9,9% á sama tímabili árið áður. Áhrif kjarasamninga á launakostnað voru 4,1% og hækkun á orlofsskuldbindingu 1,8%.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld námu 2.752 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins og hækkuðu um 250 millj. kr. milli ára. Kostnaðarhlutfallið var 11,5% samanborið við 10,5% árið áður. Kostnaðaraðhald var aukið á öðrum ársfjórðungi með góðum árangri. EBITDA hlutfall á árinu var 11,3% samanborið við 13,0% árið áður.

Fjármagnsliðir og hlutdeildarfélög

Hrein vaxtagjöld lækkuðu um 76 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins m.v. sama tímabil í fyrra. Víxlaútgáfa hefur gengið samkvæmt áætlunum og viðtökur á markaði hafa verið góðar.

Gengistap hækkaði um 138 millj. kr. milli ára sem er vegna áhrifa veikingar krónunnar á móti evru á viðskiptaskuldir samstæðunnar.

Í fyrra voru tekjufærðar 386 millj. kr. einskiptistekjur vegna hækkunar á hlut Ölgerðarinnar í Iceland Spring sem er nú orðið dótturfélag. Hlutdeildartekjur lækka því um 372 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins.

Iceland Spring

Reksturinn á Iceland Spring á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins var áfram mjög góður og í  samræmi við áætlanir. EBITDA var 231 millj. kr. samanborið við 170 millj. kr. á sama tímabili 2023. Á árinu 2025 er stefnt að því að koma fram með fleiri vörunýjungar sem styrkja vöruframboð viðskiptavina Iceland Spring enn frekar.

Collab útflutningur

Sala á Collab í Danmörku hefur gengið samkvæmt áætlun. Bestur árangur á Norðurlöndunum hefur náðst þar í landi og verður nú allur kraftur settur á þann markað á svæðinu.

Á undanförnum mánuðum hefur Þýskalandsmarkaður verið skoðaður mjög ítarlega. Það er mat stjórnenda að Collab muni koma með nýnæmi inn á þann markað sem hentar viðskiptavinum og neytendum vel. Sá markaður er mjög stór og útlit fyrir að hann vaxi áfram á næstu árum. Því var tekin ákvörðun um að hefja markaðssetningu á Collab í Þýskalandi á næstu mánuðum.

Á þessu fjárhagsári er áfram gert ráð fyrir 300 millj. kr. fjárfestingu vegna markaðssetningar Collab erlendis. Á árunum 2025 og 2026 er gert ráð fyrir áframhaldandi fjárfestingu sem nemur að lágmarki 300 millj. kr. hvort ár. Gert er ráð fyrir að frá og með árinu 2027 muni EBITDA áhrifin verða jákvæð.

Volker Nieman og Erna Hrund Hermannsdóttir hafa verið ráðin til að leiða Collab útflutningsverkefnið. Þau eru bæði með mikla reynslu, Erna Hrund sem m.a. vörumerkjastjóri L´Oreal á Íslandi til langs tíma með frábærum árangri og Volker Niemann hefur m.a. starfað sem Marketing manager og Senior brand manager fyrir Coca-Cola í Þýskalandi og sem framkvæmdastjóri hjá Weetabix í Evrópu.

Fjárfestingar

Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 766 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum fjárhagsársins og voru í samræmi  við áætlanir. Fjárfestingaáætlun fyrir árið hefur verið endurskoðuð til lækkunar og nú er gert ráð fyrir 1.243 millj. kr. fjárfestingum fyrir árið í stað 1.617 millj. kr. sem var eldri áætlunin. Ýmist hefur verið hætt við minni fjárfestingaverkefni eða þeim frestað til næstu ára.

G7-11 fasteignafélag ehf., dótturfélag Ölgerðarinnar, hefur gert tilboð í allt hlutafé Á.Ó. eignarhaldsfélags ehf. sem á vöruhús og skrifstofuhúsnæði að Köllunarklettsvegi 6. Húsnæðið er samtals 2.300 fm að stærð og því fylgir byggingarréttur fyrir aðra eins byggingu. Tilboðinu hefur verið tekið af hálfu eiganda félagsins, Sjónvarpsmiðstöðvarinnar ehf. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar liggur fyrir og unnið er að gerð kaupsamnings.

Stóreldhúsadeild Danól mun flytja starfsemi sína í húsnæðið um áramótin en hýsing og dreifing á þeim vörum hefur verið úthýst til þriðja aðila frá árinu 2019. Með þessu er hægt að veita viðskiptavinum betri þjónustu en nú er mögulegt og jafnframt hagræða í rekstri.

Kaupverð félagsins var 1.600 millj. kr. að frádregnum vaxtaberandi skuldum.

Horfur og afkomuspá

Velta það sem af er þriðja ársfjórðungi 2024 er 1% hærri en á sama tímabili í fyrra.

Danól skrifaði nýlega undir samning við Luxe deild L‘Oreal um dreifingu á mörgum af helstu snyrtivörumerkjum í heimi s.s. Lancome, Biotherm, Yves Saint Laurent og Giorgio Armani á Íslandi.  Danól mun taka við þeim vörumerkjum  frá og með 1. janúar 2025.  Áætluð ársvelta er á bilinu 500-700 millj. kr. 

Iceland Spring hefur nýverið gert samning við 7-Eleven í Bandaríkjunum um þrjár tegundir af vatni í dósum.  Áætluð ársvelta er um 500 millj. kr.  Sala hefst í byrjun næsta árs. 

Áður útgefin afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 5,1 – 5,5 ma. kr. og gera stjórnendur Ölgerðarinnar nú ráð fyrir að EBITDA fjárhagsársins 1. mars 2024 – 28. febrúar 2025 lækki í 4,9 – 5,3 ma. kr. Helstu forsendur í uppfærðri spá eru fyrirsjáanleg minni umsvif seinni hluta fjárhagsársins.

“Ytri aðstæður í þjóðfélaginu eru krefjandi um þessar mundir eins og flest öll fyrirtæki finna fyrir og Ölgerðin er þar engin undantekning. Minni neysla erlendra ferðamanna og það aðhald sem heimilin eru farin að sýna vegna efnahagsástandsins koma fram í þessu uppgjöri, en sterk staða vörumerkja fyrirtækisins kemur ennfremur í ljós. Þó hægt hafi á vexti sem einkennt hefur rekstur síðustu ára hvikar Ölgerðin hvergi í vöruþróun og útflutningi. Góðar viðtökur við Collab í Danmörku eru ánægjulegar og það er spennandi verkefni að takast á við Þýskalandsmarkað í kjölfarið. Þá verður rekstur Iceland Spring sífellt öflugri og spennandi verður að sjá íslenskt vatn í dósum í verslunum 7-Eleven á næsta ári. Snyrtivörudeild Danól verður enn öflugri en áður með nýjum samningi um dreifingu á mörgum af þekktustu snyrtivörumerkjum í heimi.  Samningurinn er staðfesting á því faglega starfi sem þar er unnið. Loks er ánægjulegt að skýra frá því að dótturfélag Ölgerðarinnar hefur fest sér 2.300 fm vöru- og skrifstofuhúsnæði að Köllunarklettsvegi og byggingaréttur er fyrir aðra eins byggingu. Þetta mun efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini okkar og leiða til frekari hagræðingar í rekstri. Við horfum því bjartsýn fram á veg,” segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Nánari upplýsingar veita:

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, í síma 665-8010

Jón Þorsteinn Oddleifsson, fjármálastjóri, í síma 820-6491

Viðhengi